„Þetta er einfaldlega stórhættulegt. Þetta er tími sem maður vill bara helst gleyma,“ segir karlmaður á fertugsaldri sem býr á höfuðborgarsvæðinu. Hann glímir við spilafíkn, vill njóta nafnleyndar og verður hér eftir kallaður Magnús.

Magnús segir að hans spilafíkn hafi fyrst byrjað með fikti rétt eftir fermingu. Við sautján ára aldur var hann farinn að spila mikið – þetta var orðið vandamál.

„Ég vann fulla vinnu. Launin voru svo sem ekkert há þá en það fóru eiginlega öll launin í spilakassa. Þegar voru tíu dagar eftir af mánuðinum var ég kominn langleiðina með að klára launin. Svona gekk þetta þar til ég fór í meðferð árið 2005. Spilafíkn er þannig að maður einangrast rosalega. Þetta er ekki eins og með áfengi og fíkniefni þar sem maður á félaga í fíkninni. Í spilafíkn situr maður einn fyrir framan skjáinn klukkutímum saman í hálfgerðum heilaþvotti.“

Hélt að hann væri sá eini

Magnús fór í áfengis- og vímuefnameðferð á Vogi þar sem ekki er boðið upp á sérhæfða meðferð við spilafíkn.

„Þetta var farið að leggjast þungt á sálina þannig að ég tók þá ákvörðun upp á eigin spýtur að fara í meðferð. Ég var búinn að hugsa um sjálfsvíg upp á dag í örugglega ár. Ég gekk aldrei það langt að reyna að framkvæma þann verknað. Það var annað hvort að fara í meðferð og taka á sínum málum eða gefa spilunum smá tíma í viðbót því stóri vinningurinn væri alveg að koma,“ segir Magnús og glottir, meðvitaður um að sá stóri var aldrei innan seilingar. Hann segir það hafa verið mikið áfall að koma inn á Vog. „Þar sá ég fólk á öllum aldri, allt frá sextán ára og upp í sjötugt. Þá kom í ljós að þetta voru allt fíklar. Maður verður svo steiktur í þessari spilafíkn. Þessu fylgir svo mikil skömm og fáir sem átta sig á hvað þetta er og hve alvarlegt þetta er. Ég hélt að ég væri sá eini í heiminum sem væri að glíma við þetta.“

Dáleiðsla og heilaþvottur

Magnús var á Vogi í tíu daga og síðan í áframhaldandi meðferð á Staðarfelli í mánuð. Þegar hann kom út af Staðarfelli byrjaði hann að sækja fundi hjá GA samtökunum (Gamblers Anonymous) og gekk vel. Hann var spilalaus í fjögur ár og sex mánuði áður en hann féll í fyrsta sinn.

„Ég missti vinnuna mína árið 2009 og var atvinnulaus í mánuð. Aðgerðarleysi er stórhættulegt fyrir fíkla sem eru að stunda fundi og snúa blaðinu við. Á þessum tíma var ég dottinn í aðgerðarleysi. Í eitt skipti vantaði mig sígarettur. Ég fór út í sjoppu og gleymdi að passa mig. Áður en ég vissi af sat ég fyrir framan spilakassa og var kominn aftur í sama farið,“ segir hann og lýsir spilafíkninni einhvern veginn svona:

„Þetta er eins og að fara í dáleiðslu. Þetta er líkt og að sitja og horfa á sama Friends þáttinn tíu sinnum í röð. Maður verður hálf ruglaður. Maður situr fyrir framan þessa kassa og horfir á sömu hjólin snúast hring eftir hring. Þetta er dáleiðsla og algjör heilaþvottur. Það eru allir sammála um að spilafíkn er geðveiki. Þetta er dauðans alvara.“

Magnús spilaði eingöngu í spilakössum í sjoppum og stundaði ekki spilasali. Hann hefur ekki steypt sér í skuldir á sínum spilaferli, hefur staðið við sínar skuldbindingar hingað til, en allur hans aukapeningur fer í kassana. Eftir þetta fyrsta fall féll hann tvisvar í viðbót. Hann sat síðast fyrir framan spilakassa í október á síðasta ári.

„Það var ekki búið að loka kössunum vegna COVID-19 þegar ég fékk bara ógeð. Það lá við að ég sæi tilganginn í lífinu. Þetta er ekki hann.“

Hefur lítið álit á Rauða Krossinum og Landsbjörgu

Ein af sögunum af fólkinu sem stundar spilakassa stendur í Magnúsi og hafði hugsanlega áhrif á ákvörðun hans að snúa baki við kössunum síðasta haust.

„Ég rakst á mann sem var með mér á fundum fyrir mörgum árum. Hann er forfallinn spilafíkill. Hann sagði við mig: Magnús, horfðu á mann eins og mig. Ég er búinn að vera í kassarugli allt mitt líf. Ég vinn og vinn og vinn og allt fer beint í þetta. Hann sagðist vera búinn að taka saman sirka bát hvað hann væri búinn að eyða í spilakössum yfir ævina og það væri eitthvað á milli sextíu til sjötíu milljónir. Þetta er maður um sextugt sem á ekki neitt í dag. Ég ætla ekki að vera sá maður sem segir þetta um sextugt.“

Það er enginn vafi í huga Magnúsar að spilakössum eigi að loka til frambúðar á Íslandi.

„Ég er mjög ánægður með formanninn hjá SÁÁ. Hann hafði bein í nefinu til að segja stopp. Rauði Krossinn – það er batterí sem mér finnst bara ógeðslegt, hreint út sagt. Eftir að ég heyrði að Landsbjörg væri á bak við þetta líka lá við að ég missti álit á björgunarsveitunum. Þegar verið er að ræða spilafíkn við þessa hópa þá koma oft fáránleg svör eins og að þessir kassar séu ekki ætlaðir fyrir spilafíkla heldur fyrir fólk sem fer út í búð, kaupir í matinn og er með klink í vasanum til að setja í kassana. Ég er búinn að heyra um þúsund tilfelli þar sem fólk hefur farið út í búð og sett smávegis í spilakassa, það vinnur og þá gerist eitthvað. Það kviknar á spilafíkninni.“