„Siðleysið er svo yfirgengilegt. Það fer öll heilbrigð skynsemi út um gluggann. Það sem ég hef aldrei getað skilið er hvernig getur hann gert mér þetta ef hann elskar mig?“

Þetta segir kona á miðjum aldri sem hefur verið í sambandi með spilafíkli í níu ár. Hún vill ekki koma fram undir nafni en verður framvegis kölluð Júlía.

„Hann sagði mér á fyrsta deiti að hann væri spilafíkill,“ segir Júlía. „Ég bara gerði mér enga grein fyrir hvað það þýddi. Ég vissi ekki að þetta væru hundruðir þúsunda og milljónir sem færu í þetta,“ bætir hún við, en þegar hún kynntist kærasta sínum var hann gjaldþrota vegna þeirra skulda sem hann hafði safnað upp vegna spilafíknar.

Ég veit ekki hvort ég tóri

Á þessum níu árum hefur kærasti Júlíu verið spilalaus í einhvern tíma, svo fallið, lofað bót og betrum og síðan endurtekur sagan sig. Núna um áramótin fékk Júlía nóg, þegar hún komst að því að kærastinn hafði verið að spila allt árið 2020 og steypt sér í margra milljóna króna skuld. Í staðinn fyrir að öskra og hóta öllu illu, eins og hún hafði áður gert, ákvað Júlía að gefa kærastanum lokaséns – hún lofaði að hún skyldi styðja hann í sínum bata en gerði honum jafnframt fyllilega grein fyrir því að hún væri ekki viss hvort hún myndi tóra í þessu sambandi.

„Núna virkar eins og hann vilji þetta – eins og hann vilji ná bata. Ég er samt svo brotin að ég veit ekki hvað ég tóri eða hvort ég tóri í þessu sambandi. Hann var að spila allt síðasta ár og ég spurði hann oft um það. Hann þvertók fyrir að hann væri að spila og sagðist ekki hafa neina löngun í það. Svo siðlaust verður fólk með spilafíkn að það lýgur beint upp í opið geðið á manni. Við áttum smá pening sem er farinn og hann fékk auk þess lánað hjá foreldrum sínum. Vanalega hef ég notað varasjóðinn okkar í að borga upp skuldirnar hans en núna setti ég honum stólinn fyrir dyrnar. Ég sagði honum að hann þyrfti að fá sér aukavinnu til að borga þetta niður því þetta er ekki mitt. Hann þarf að semja um sínar skuldir og þá náum við að sigla lygnan sjó í fjármálunum. Ég er bara guðs lifandi fegin að við keyptum ekki íbúð. Hann væri pottþétt búinn að veðsetja hana.“

Ógeðslegt að lifa við þetta

Júlía sá alltaf framtíð með þessum manni – var viss um að þau yrðu gömul saman og myndu eyða ellinni á suðrænum slóðum. Nú er hún ekki viss.

„Ég elska hann rosalega mikið. Hann er svo góður maður og góður við börnin mín og barnabörn. Við eigum mjög gott samband. Við erum jafningjar og rífumst aldrei. Mig langar í líf með honum en mig langar ekki að lifa í þessu. Ég get ekki boðið sjálfri mér upp á þetta. Það er ógeðslegt að lifa við þetta. Hann er búinn að falla sjö sinnum og það brotnar alltaf meira inni í mér smátt og smátt. Hann veit að hann drepur sjálfan sig á þessu, en vill hann virkilega missa það sem við eigum? Missa af lífi barna og barnabarna? Er þetta það sem hann vill?“

Ég er í henglum

Júlía segir lífið með spilafíkli einkennast af skömm. Skömm að eiga mann sem getur ekki tekið á spilafíkninni sinni. Skömm yfir því að geta ekki aðstoðað börnin sín fjárhagslega vegna spilafíknar kærastans. Óöryggið sem fylgir því að geta aldrei treyst á makkerinn sinn. Á meðan hún gerir upp hug sinn hvort hún vill eyða því sem eftir lifir ævinnar með kærastanum ætlar Júlía núna að huga að sinni eigin andlegu heilsu.

„Ég er búin að vera í niðursveiflu síðan ég komst að því að hann hefði spilað allt síðasta ár. Ég reyni að minna mig á að ég stjórna honum ekki og að þetta sé ekki mér að kenna. Ég hefði gott af því að tala við sálfræðing og vinna úr minni meðvirkni og standa með sjálfri mér. Ég þarf að vera duglegri að hugleiða og einblína á mig því ég breyti honum ekki. Ég þarf að gera meiri hluti sem gleðja mig. Ég þarf ekki að skammast mín því ég ræð því ekki hvort maðurinn minn er spilafíkill. Hann er að vinna í sínum bata og það þarf ég að gera líka, því ég er í henglum.“