Guðbjörg Glóð Logadóttir, stofnandi og eigandi Fylgifiska, missti föður sinn úr krabbameini árið 2017. Hann var 66 ára að aldri. Árið 2000, þegar faðir hennar var rétt tæplega fimmtugur, fékk hann vírus í heila sem olli svo miklum persónubreytingum að faðirinn sem Guðbjörg ólst upp með og leit upp til breyttist í annan og ólíkan mann. Framheilaskaði getur valdið hömluleysi og aukið á fíkn og þannig var það í tilfelli föður Guðbjargar.

Tugir milljóna hurfu

Guðbjörg, systkini hennar og móðir voru vel meðvituð um alkóhólismann sem hann gímdi við í seinni tíð en fíkn í spilakassa kom þeim í opna skjöldu.

„Við komumst í raun að því að hann var spilafíkill eftir að hann var skilinn við mömmu og systir mín sem hafði aðgang að heimabankanum hans var að fara inn til að athuga hvort allt væri í skilum. Þá sá hún sér til skelfingar að reikningurinn hans var nánast tómur. Tugir milljóna höfðu húrrast út af reikningnum á nokkrum mánuðum og það sem hefði átt að tryggja honum góð efri ár var horfið,“ segir Guðbjörg og heldur áfram.

„Hann spilaði mest um helgar en svo var hann farinn að laumast úr vinnunni til að spila, en á þessum tíma vann hann hjá okkur í Fylgifiskum. Við héldum að hann væri að fara að athuga með fisk en þá var hann að stelast í kassa. Fíknin vatt upp á sig og hann var að verða búinn með allan sparnaðinn sinn. Við íhuguðum að svipta hann fjárræði en það er þungt og leiðinlegt ferli, svo við ákváðum að gera það ekki. Svo fór hann að leita annarra leiða til að fjármagna fíknina. Við vissum að hann fékk lán hjá vinum, svo seldi hann listaverkasafnið sitt og aðrar eigur sem hann kom í verð. Við heyrðum alls konar sögur af honum og upplifðum alls konar sem rýrði traustið til hans svo ég neyddist að lokum til að segja honum upp vinnunni. Það var rosalega erfitt. Það var ýmislegt reynt til að aðstoða hann í gegnum tíðina, fá hann til að hætta en hann var aldrei til í að líta á fíknina sem vandamál.“

Guðbjörg bætir við að ákvörðun um að segja föður sínum upp hafi ekki verið tekin í skyndi. Hann var búinn að vinna hjá henni í nokkur ár áður en systkinin komust að því að hann væri haldinn spilafíkn og vann hjá henni í um ár eftir að þau komust að þessu.

Varð edrú en hætti ekki að spila

Svo fór að faðir Guðbjargar varð gjaldþrota. Íbúðin hans var boðin upp og hann átti hvergi heima. Þá ákváðu systkinin að nýta sér stöðuna til að koma honum í meðferð.

„Við bjuggum þannig að enginn gat tekið við honum svo við settum honum stólinn fyrir dyrnar. Gerðum honum grein fyrir að hann þyrfti að fara í áfengismeðferð til að eiga möguleika á að eignast heimili á ný. Við komum honum á Vog og síðan bauðst honum eftirmeðferð á Vík. Eftir það varð hann edrú, sem okkur fannst kraftaverk. Hann lifði í tæp tvö ár án þess að drekka áfengi en hann hætti aldrei að fara í spilakassa.“

Guðbjörg segir að faðir sinn hafi lent á milli skips og bryggju í heilbrigðiskerfinu. Ekkert greip hann eftir heilaskaðann og ekkert greip hann eftir áfengismeðferðina – það voru engin úrræði í boði fyrir fólk eins og hann.

„Við komum honum með góðri hjálp og miklu átaki inn á elliheimili eftir að hann varð edrú því hann var ófær að sjá um sig sjálfur. En hann var 64 ára gamall og átti enga samleið með fólkinu þar. Svo greinist hann með ólæknandi lungnakrabba í árslok 2016 og þá þurftum við að beita hörku til að koma honum að á hjúkrunarheimili. Sem betur fer tókst það svo hann var á betri stað þegar hann lést 20. október 2017.“

Með súrefniskút í strætó

Lungnakrabbamein á lokastigi hindraði föður Guðbjargar ekki í að langa að spila.

„Hann strauk af sjúkrahúsinu, fór út á inniskónum í fötum merktum Landspítalanum með súrefniskútinn og tók strætó niður í bæ til að athuga með stöðuna á pottunum. Hann átti sinn spilakassahring, fór inn á nokkra staði til að athuga stöðuna og þetta var hann tilbúinn að leggja á sig, fárveikur á inniskónum með kútinn í snjónum,” segir Guðbjörg.

„Við horfðum upp á hann breytast svo svakalega eftir heilaskaðann. Hann fór úr því að vera mikill karaketer, athafnamaður, uppátækjasamur og vinamargur yfir í að verða nánast götunnar maður. Hann átti ekki heima á götunni en hann hefði endað þar ef hann hefði ekki fyrir kraftaverk hætt að drekka. Okkur þótti öllum rosalega vænt um hann og vissum að hann hefði gert allt fyrir okkur ef við hefðum lent í þessari stöðu, en við systkinin vorum ekki raddir sem hann hlustaði á og þegar að fíkn er annars vegar er ekki hægt að hjálpa fólki fyrr en það vill þiggja hjálp. Það er ennþá ekkert annað meðal til við fíkn. Þegar að fólk er ekki tilbúið þurfa aðstandendur að horfa upp á fíkilinn sinn fara erfiðar og sársaukafullar leiðir. Það er mjög þungbært og sárt“

Endurheimti föðurinn eftir að hann dó

Síðustu tvö árin sem faðir Guðbjargar lifði náðu hún og systkini hennar að nýta tímann vel.

„Þá var auðveldara að kljást við hann því hann var ekki annað hvort á leiðinni að verða fullur eða þunnur og skapvondur. Við vissum að við værum að fá í hendurnar tíma sem við við yrðum að nýta og svo átti hann líka fullt af barnabörnum sem fengu fyrst þarna að kynnast afa sínum,“ segir Guðbjörg. Þó foreldramissir sé aldrei auðvelt verkefni að takast á við lifir Guðbjörg í sátt í dag. Hún á tiltölulega auðvelt með að tala um föður sinn og hans bresti, enda lærði hún mikið af því að horfa upp á föður sinn eftir að hann fékk heilaskaða.

„Ég átti rosalega góðan pabba. Hann var mjög mikilvægur í mínu lífi og mér finnst ég hafa endurheimt hann svolítið eftir að hann dó, eins skrýtið og það hljómar. Þegar hann veiktist var hann 49 ára og breyttist í mann sem honum sjálfum hefði ekki fundist skemmtilegur. Það er erfitt að eiga pabba sem er ekki samur en er samt á lífi. Ég hefði kosið að það tímabil hefði verið styttra. Ég lærði að það er ekki endilega það versta í stöðunni að missa fólkið sitt. Hann hefði getað dáið árið 2000 og þá hefði hann dáið sem hetja. Þegar hann dó sautján árum seinna dó allt önnur manneskja. Samt er svo merkilegt að veiku árin hans spólast upp í lítinn kafla sem maður man varla og eftir lifir manneskjan sem ól okkur upp og manni þykir svo vænt um.“

Bleiki fíllinn í stofunni

Guðbjörg hefur sterkar skoðanir á rekstri spilakassa á Íslandi.

„Þetta er stórt mál sem enginn vill tala um, bleiki fíllinn í stofunni. Að Háskóli Íslands og Rauði Krossinn skuli fjármagna sig með fíkn er í besta falli stórfurðulegt. Rauði Krossinn getur ekki stært sig af því að bæta eymd fólks ef hann býr til eymd við það að fjármagna sig. Svo eru auðvitað til betri leiðir til að styðja við háskóla en með framlögum spilafíkla, liggur það ekki í augum uppi? Við systkinin vorum fullorðin þegar pabbi byrjaði að spila og þó það hefði rýrt hans líf hafði það ekki mikil áhrif á lífið okkar. Mér fannst oft huggun harmi gegn að föðurarfurinn minn fór þó allavega til góðra málefna en þannig er því ekki farið með lítil börn virkra spilafíkla. Þau eru að missa svo mikið. Ég held að þetta sé orðið gott, nú sé rétt að viðurkenna að nóg sé nóg og loka.“