„Í rauninni fór ég aldrei yfir mín mörk því spilafíkill sem er virkur á sér engin mörk. Hann þarf bara að verða sér út um fé til að geta spilað. Ef það er ekki hægt að spila þarf bara að bíta í það súra epli þar til aurarnir koma.“

Þetta segir maður á höfuðborgarsvæðinu sem er kominn yfir miðjan aldur. Hann hefur verið spilalaus í fimmtán ár en á tímabili hljóp tap hans í spilakössum á tugum milljónum króna. Maðurinn kemur fram undir nafnleynd og gengur hér eftir undir nafninu Árni.

Sérstæður sjúkdómur

Árni byrjaði snemma að spila. Hann var sjómaður mestalla ævina, varð ungur skipstjóri og þótti góður í sínu fagi. Hann þénaði vel og fyrst um sinn spilaði hann fyrir afganginn af laununum þegar búið var að greiða af húsinu, setja bensín á bílinn og mat í ísskápinn.

„Spilafíkn er sérstæður sjúkdómur. Hann byggist annars vegar upp á áföllum sem vaxa á lífsleiðinni og aldrei er tekið á. Þetta er hins vegar spennufíkn og í upphafi gróðafíkn. Fæstir gera sér grein fyrir að þeir séu spilafíklar fyrr en í óefni er komið,“ segir Árni. „Ég reddaði því að borga af húsinu, keypti mat, setti bensín á bílinn og þreif hann og bónaði. Restina hafði ég fyrir mig. Ég fór ekkert í frí til útlanda með börnin og lék mér. Ég reddaði þessum nauðsynjum fyrir lúkkið. Ég þurfti að líta sæmilega út út á við svo fólk gæti ekkert verið að væla út af mér.“

Skuldar engum neitt

Árni segir spilafíknina einkennast af stjórnleysi, líkt og alkóhólisma sem hann glímdi einnig við þar til fyrir fimmtán árum síðan. Tvö ár eru síðan hann náði að borga niður allar þær skuldir sem hann safnaði þegar hann var spilafíkill. Hann spilaði fyrir háar fjárhæðir og tapið varð oft gríðarlegt. Það skipti hins vegar engu máli í hans huga hvort hann vann eða tapaði þegar fíknin tók yfir.

„Í upphafi skipti máli að vinna og vinningarnir gátu enst í einhvern tíma. Eina nótt árið 1997 átti ég fyrir heilu einbýlishúsi af bestu gerð. Næstu nótt átti ég ekki neitt og mér var alveg sama. Þegar mest var skuldaði ég 20 til 30 milljónir. En ég kunni á bankakerfið. Ég tók lífeyrislán, borgaði niður einhverjar skuldir, sýndi veltu, skuldabreytti lánum og velti þannig boltanum á undan mér,“ segir Árni. Við bankahrunið skuldaði hann þrjár milljónir umfram eignir og var með um fjögur hundruð þúsund krónur í greiðslubyrði á mánuði. „Planið var að komast á núllið og byrja síðan aftur að spila,“ segir Árni og hlær. Þegar hann sá lánin síga niður eftir því sem hann borgaði meira inn á þau jókst ákafinn í að koma sér á núllið og spilafíknin dvínaði með mikilli sjálfsvinnu. „Nú skulda ég engum neitt. Einkenni velflestra spilafíkla er að vera harðduglegir. Annað hvort fara þeir þessa leið eða gera sig gjaldþrota.“

Þann 27. maí næstkomandi hefur Árni verið frá spilum í fimmtán ár. Hann sækir einn fund á vegum samtakanna GA (Gamblers Anonymous) á viku og einn AA fund. Yfirleitt fer hann á einn fund til viðbótar, þá annað hvort GA eða AA. Eftir að hann byrjaði í GA féll hann einu sinni.

„Ég kom af GA fundi og spilaði í þrettán klukkutíma. Tapið var nálægt milljón. Ég var þá kominn með reynslu og gerði mér grein fyrir hvað ég væri í stjórnlausu ástandi. Ég ætlaði ekkert að spila en ég hélt áfram. Það skipti engu máli hvort ég græddi eða tapaði. Eina sem skipti máli var að ýta á takkana á spilakassanum.“

„Spilafíklar bara taka líf sitt“

Eftir síðasta spilið hellti Árni sér út í huglægt efni og tólf spora efni. „Ég las líka töluvert í siðfræði því ég var á því að ég væri siðlaus því ég réð ekki við þetta. Ég var kræfur að redda mér peningum, en ég þurfti líka að vera kræfur til að geta spilað. Frá síðasta spili hefur verið góður stígandi í mínu lífi. Ég er alltaf spenntur fyrir því hvað gerist næst. Ég vinn stanslaust í sjálfum mér. Á morgnana fer allt frá korter og upp í klukkutíma að vinna í þessu því mér finnst það gaman. Ég er mjög heppinn með það.“

Árni á fjórar dætur sem hafa búið hjá honum síðasta rúma áratuginn. Þær eru meðvitaðar um hans fortíð og hafa stutt föður sinn í að sækja fundi og vera í bata. Þó Árni hafi haldið sig frá spilakössum í allan þennan tíma hefur hann sterkar meiningar um tilvist þeirra á Íslandi.

„Það er skoðun mín að við eigum að slökkva á spilakössunum til frambúðar því þeir eru engum til góðs. Þetta er mannskemmandi. Það deyja fleiri úr spilafíkn en við vitum um. Ég skoða dánarfregnir á hverjum degi og þekki alltaf einhvern sem deyr úr fíkn. Spilafíklar bara taka líf sitt. Þeir rekast vel í hópi með öðrum spilafíklum en þar á milli eru þeir einir heima hjá sér, eiga ekki pening til að spila eða eru hættir að spila, kunna ekki að lifa lífinu,“ segir Árni. „Ég vildi óska að ég hefði ekki orðið spilafíkill. Það sem gerði mig að spilafíkli var að þar losaði ég spennu. Þar var enginn að argast í mig. Spilakassarnir hvíldu mig frá annarri spennu í lífinu. Ég var góður skipstjóri með mannaforráð lengi vel. Því fylgdi spenna. Að vera úti á sjó fylgdi spenna. Að þurfa að kaupa sér hús til að vera eins og hinir. Því fylgdi spenna.“