Fréttatilkynning frá Samtökum áhugafólks um spilafíkn
Reykjavík, 15. maí 2020

Eindreginn stuðningur er í samfélaginu við að spilakassar verði lokaðir til frambúðar. Þetta sýnir viðhorfskönnun um spilakassa og spilasali á Íslandi sem Gallup vann fyrir Samtök áhugafólks um spilafíkn. Meirihluti er andvígur því að starfsemi í almannaþágu sé fjármögnuð með spilakössum og helmingur telur að spilafíkn sé helsta ástæða þess að fólk spilar í spilakössum. Afar fáir segjast nota spilakassa að staðaldri.

Þegar samkomubann vegna Covid-19 gekk í gildi í mars var spilakössum Íslandsspila sf. lokað. Þeir voru hins vegar opnaðir aftur í byrjun mánaðarins þegar slakað var á samkomubanninu. Opnunin er þvert á vilja almennings því samkvæmt nýrri könnun sem Gallup vann fyrir Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS) segjast 85,5 prósent þeirra sem tóku afstöðu vilja að spilakassar verði lokaðir til frambúðar á Íslandi eftir að samkomubanni vegna Covid-19 lýkur.

„Þegar spilakössunum var lokað í upphafi samkomubannsins bárust fréttir af spilafíklum sem hættu að spila og náðu betri tökum á lífi sínu. Það voru okkur því mikil vonbrigði þegar Íslandsspil sf. ákváðu að opna kassana á ný þann 4. maí. Allur þorri almennings er greinilega sama sinnis. Þótt Covid-19 gangi yfir hverfur spilafíknin ekki en okkur hefur nú gefist tími til að sjá jákvæðar afleiðingar lokunar spilakassa á Íslandi,“ segir Alma Hafsteins, formaður SÁS.

Sjö af hverjum tíu sem afstöðu tóku í könnuninni eru annað hvort frekar neikvæðir eða mjög neikvæðir gagnvart því að starfsemi í almannaþágu sé fjármögnuð með spilakössum en Íslandsspil eru í eigu þriggja félagasamtaka sem vinna að
almannaheill: Rauða krossinns á Íslandi, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og SÁÁ. Þá telur rétt tæpur helmingur að spilafíkn sé helsta ástæða þess að fólk spilar í spilakössum og nánast sama hlutfall álítur að vinningsvon sé helsta ástæðan. Aðeins eitt prósent telur aftur á móti að fólk spili í kössunum til að styrkja gott málefni.

„Þessi niðurstaða kemur mér ekki á óvart en það er gott að nú liggi það fyrir svart á hvítu að almenningi finnist skjóta skökku við að þessi félagasamtök verða að reiða sig á fjárframlög frá hópi fólks sem á við alvarlegan spilavanda að etja. Þetta er þeim mun sorglegra í ljósi þess að þessi öflugu samtök hafa unnið landi og þjóð svo mikið gagn í áranna rás,” segir Alma Hafsteins, formaður SÁS.

„Að mínu mati sýnir líka sú staðreynd hve fáir spila að staðaldri í spilakössum að mjög afmarkaður hópur fólks er á bak við þær milljarðatekjur sem spilakassarnir færa eigendum sínum á hverju ári,” bætir Alma við en af þeim sem tóku afstöðu í Gallup-könnuninni kváðust tæp 94 prósent aldrei hafa spilað í spilakössum á Íslandi á síðastliðnum tólf mánuðum.

Könnunin var gerð 30. apríl – 11. maí síðastliðinn. Um netkönnun var að ræða og var úrtakið 1529 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup. 840 svöruðu könnuninni og þátttökuhlutfall var því 54,9 prósent.