Menntamálaráðherra,
Lilja Alfreðsdóttir 

Að gefnu tilefni óska Samtök áhugafólks um spilafíkn eftir afstöðu menntamálaráðherra til reksturs spilakassa í fjáröflunarskyni fyrir Háskóla Íslands og jafnframt viðbrögðum við ummælum, annars vegar forstjóra Happdrættis Háskóla Íslands, og hins vegar dómsmálaráherra, um ábyrgð menntamálaráðherra í þessu efni. 

Vísað er sérstaklega til orða forstjóra Happdrættis Háskóla Íslands, Bryndísar Hrafnkelsdóttur, í Kompási þann 1. desember 2020 þar sem hún sagði að rekstur spilakassa væri ákvörðun stjórnvalda, menntamálaráðuneytis, og það væri lögbundið hlutverk HHÍ að standa að rekstri spilakassa til að fjármagna byggingar Háskóla Íslands. Í orðum forstjórans lá að ábyrgðin væri stjórnvalda og menntamálaráðherra sérstaklega. 

Þá er vísað í viðtal við kvöldfréttir Stöðvar tvö þann 9. desember 2020 þar sem dómsmálaráðherra segir að ef HHÍ vilji hætta rekstri spilakassa þá sé það á ábyrgð menntamálaráðherra: “Ef þau vilja hætta þessari starfsemi þá er það auðvitað eitthvað sem hægt er að ræða, væntanlega, við menntamálaráðherra”. Framangreind ummæli hafa komið fram opinberlega og er mælst til þess að menntamálaráðherra svari þeim einnig opinberlega. 

Samtök áhugafólks um spilafíkn fengu Gallup til að kanna viðhorf almennings til spilakassa og spilasala á Íslandi dagana 30. apríl – 11. maí 2020. Niðurstöður voru afgerandi, mikill meirihluti almennings er neikvæður gagnvart því að fjármagna starfsemi í almannaþágu með spilakössum, vill að spilakassar loki til frambúðar, og er ekki að nota spilakassa. Þetta staðfestir það sem við hjá SÁS höfum haldið fram, mjög afmarkaður og lítill hópur er að leggja allt sitt í spilakassa HHÍ! 

Spurt var:
Hversu oft hefur þú spilað í spilakössum á Íslandi á síðastliðnum 12 mánuðum.
Aldrei 93,6%
1-2 sinnum 5,5%
3-10 sinnum 0,5%
11-50 sinnum 0,3% 

Spurt var:
Vegna Covid-19 hafa spilakassar verið lokaðir síðan 16. mars, myndir þú vilja hafa spilakassa lokaða til frambúðar á Íslandi eða vilt þú að þeir opni aftur eftir Covid-19?
Já, ég myndi kjósa að spilakassar og spilasalir yrðu áfram lokaðir 85,8%
Nei, ég vil að spilakassar og spilasalir verði opnaðir aftur eftir Covid-19 14,2% 

Spurt var:
Almennt séð hversu jákvæður(ur) eða neikvæð(ur) ert þú gagnvart því að fjármagna starfsemi í almannaþágu á Íslandi með spilakössum?
Jákvæð(ur) (mjög og frekar) 9,0%
Hvorki né 19,7%
Neikvæð(ur) (mjög eða frekar) 71,3% 

Þar sem erindi þetta snýr að fleiri ráðuneytum en menntamálaráðuneyti er samrit sent á dómsmálaráðherra og forsætisráðherra, með ósk um að það verði kynnt og rætt í ríkisstjórn. 

Virðingarfyllst, 

Alma Björk Hafsteinsdóttir
F.h. Samtaka áhugafólks um spilafíkn 

Samrit sent til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra