„Viðhorfskannanir sýna að þorri fólks er neikvætt gagnvart því að starfsemi í almannaþágu sé fjármögnuð með spilakössum. Það eru engar rannsóknir sem sýna fram á það að þeir sem glími við spilafíkn myndu frekar snúa sér að fjárhættuspilum á netinu í staðinn. Engar.“

Þetta sagði Sara Elísa Þórðardóttir, þingmaður Pírata, í ræðu sinni á Alþingi þann 3. febrúar síðastliðinn. Hún líkti spilakössum sem rafrænu heróíni. Eitthvað sem eitt sinn var sakleysislegt en sé nú orðið að eftirlitslausu áhættuspili.

„Við vitum að rannsóknir sýna að yfirgnæfandi hluti þeirra sem spila eru haldnir alvarlegri spilafíkn. Þetta er ekkert skylt við frjáls framlög. Þetta er ekki fólk sem er aflögufært. Veruleikinn er sá að um er að ræða örfáa sárlasna einstaklinga sem fórna öllu með háum fjárhæðum og spilar lífinu frá sér. Það er ekki lengur um að ræða fólk sem hendir smámynt í spilakassann um leið og fær sér pylsu út í sjoppu eins og áður var.“

Sara telur að stjórnvöld þurfi að taka upp hanskann fyrir spilafíkla og fjölskyldur þeirra.

„Er ekki kominn tími til að stjórnvöld taki upp hanskann fyrir þá sem þjást af spilafíkn og fjölskyldur þeirra? Forsendur núgildandi laga eru brostnar og stjórnvöld þurfa að bregðast við strax.“